Finndu okkur á Facebook
velkomin
Prenta

Lestur er bestur - spjaldanna á milli

Höfundur: Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

8. september er alþjóðadagur læsis. Allt frá árinu 1965 hefur UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, tileinkað deginum málefni læsis og lýst því yfir að læsi sé kjarni alls náms og snerti alla bæði börn og fullorðna. Í ár er svo Bókasafnsdagurinn mánudaginn 9. september undir slagorðinu „Lestur er bestur – spjaldanna á milli."
Víða er haldið upp á þessa daga, um þá er fjallað í fjölmiðlum og Bókasafnsdagurinn notaður til að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu. Hér gefst skólasöfnum tækifæri til að láta að sér kveða. Nú þegar nýlegar niðurstöður úr reglubundinni lesskimun skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar upplýsa okkur að aðeins 69% barna í 2. bekk geta lesið sér til gagns er brýnt að skólasöfn nái til notenda sinna og sái nokkrum góðum yndislestrarfræjum meðal þeirra.
Skólasöfn grunnskólanna hafa átt undir högg að sækja en eiga nú uppreisnarvon með nýrri aðalnámskrá. Þar á að fara fram fræðsla á sviði upplýsingar – og tæknimenntar sem felst í að efla upplýsinga- og miðlalæsi allra nemenda skólans. Það er ekki óalgengt að skólasafn og tölvuver skóla séu aðskilin en með hraðri þróun í upplýsingatækni er nokkuð ljóst að hér er um sameiginlegan náms- og þekkingar vettvang að ræða sem í nýrri aðalnámskrá kallast upplýsingaver. Í upplýsingaveri þykir sjálfsagt að veita notendum jafnan aðgang að bóklegum og rafrænum upplýsingum.


„Lestur er bestur – spjaldanna á milli" á við hvort sem nemandi situr við tölvu eða er með bók í hendi. Í lögum um grunnskóla frá 2008 nr. 91 er fjallað um skólasafnið sem upplýsingamiðstöð eða upplýsingaver. Þar segir að upplýsingamiðstöðin eigi að vinna að bættri menntun allra nemenda og vera í nánum tengslum við skólasamfélagið. Í upplýsingamiðstöð eiga nemendur að hafa aðgang að og geta nýtt sér ýmis tæki og gögn. Þar á að skapast vettvangur í að efla læsi í víðum skilningi. Í aðalnámskrá er jafnframt lögð áhersla á notkun fjölbreyttra gagna svo sem bóka, annara safngagna, tölva og búnaðar til upplýsinga- og þekkingaöflunar, sköpunar og miðlunar. Nú er nokkuð ljóst að ekki er nóg að gera kröfur til kennara og starfsfólks grunnskóla og hafa væntingar til bættrar menntunar grunnskólanemenda með því að leggja fram nýja aðalnámskrá ef ekki er til staðar; nauðsynleg gögn og búnaður, metnaður stjórnenda og skilningur rekstraraðila grunnskóla. Þessir aðilar bera ábyrgð á að lögum sé fylgt og þar með að sjá kennurum og nemendum fyrir þeim búnaði sem til þarf við innleiðingu nýrrar aðalnámskrár sem leggur áherslu á; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðrærði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Mikilvægis læsis í samfélagi barna okkar er gríðarlega mikið. Ef við horfum aðeins til upplýsinga- og miðlalæsis þá flæða upplýsingar að börnum úr öllum áttum í formi afþreyginga, auglýsinga frá miðlum og umhverfi, frá Netinu gegnum farsíma, snjallsíma, ipad, iphone eða spjaldtölva. Við verðum að viðurkenna að sennilega eru nemendur grunnskólanna vanari hraða og áreiti en rólegheitum, þolinmæði og nákvæmi.
Grunnskólanum ber skylda til að mæta þessum þörfum skólasamfélagsins og stuðla að auknu upplýsingalæsi jafnframt því að leggja áherslu á notalega stund með bók í hendi. Hver vill taka stundina frá börnum þar sem þeir þeysast á vit ævintýraheima hugans í dagdraumi á skólasafni með fætur upp í loft eða með bók upp í rúmi í leit að góðum nætursvefni?
Í Reykjavík hittast forstöðumenn grunnskólasafna mánaðralega hjá Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur í Hvassaleitisskóla við Háaleiti. Þar eru kynntar nýútgefnar bækur og rædd gæði þeirra fyrir nemendur grunnskólans. Horft er til ýmissa læsisþátta svo sem leturgerðar, myndefnis og hvort boðskapurinn sé áhugaverður og líklegur hvati til lesturs. Forstöðumenn deila jafnframt hugmyndum sín á milli sem hugsanlega gætu haft aðdráttarafl á nemendur og verið þeim lestrarhvatning.
Fagleg vitund forstöðumanna skólasafna er augljóslega mikil. Þeir eru almennt kennarar með viðbótarmenntun í upplýsingafræðum eða bókasafns- og upplýsingfræðingar með menntun á sviði uppeldis- og kennslufræða. Forstöðumenn skólasafna eru vakandi yfir því efni sem berst að skólasöfnum og reyna eftir fremsta megni að leiðbeina nemendum við að velja lesefni við hæfi og stuðla jafnframt að skólasafnið þjóni þörfum þeirra.
Félag fagfólks á skólasöfnum (FFÁS) er félag forstöðumanna skólasafna grunnskóla. Félagið starfar á landsvísu og er með aðalstöðvar í Kópavogi. Stjórn félagsins fundar mánaðarlega og meginmarkmið þess er að standa vörð um starfsemi skólasafna, vera vakandi fyrir öllu sem viðkemur skólasöfnum og styrkja samstarf skólasafna við fagfélög sem hvetja til útgáfu og lesturs grunnskólanema.
Framundan eru sannarlega góðæristímar bókasafna; alþjóðadagur læsis 8. september, Bókasafnsdagurinn 9. september, bókmenntamánuður Reykjavíkur í október þegar ljóðin sækja að borgarbúum úr ólíklegustu áttum og Norræna bókasafnsvikan í nóvember sem kemur til með að minna okkur á kalda vetur á norðurhveli jarðar.
Þrátt fyrir hraðar breytingar og auknar tæknilegar kröfur til skólasafna er mikilvægt að skólasöfn leyfi sér að vera áfram hjarta skólans þar sem nemendur og starfsfólk geta leitað sér hugarþægðar og hugarróar og þar sem; „Lestur er bestur – spjaldanna á milli".

Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir, forstöðumaður skólasafns Fossvogsskóla. Pistlahöfundur er kennari með MLIS (master in library and information sience)í bókasafns- og upplýsingafræðum og situr í stjórn FFÁS, félags fagfólks á skólasöfnum.ragnhildur

Sendu inn gögn


Skráning á póstlista

Nafn:
Vefpóstur:

шаблоны joomla 2.5