Prenta

Heimsókn í Seljaskóla

Höfundur: Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Fagfólk á skólasöfnum í Reykjavík hittist einu sinni í mánuði að jafnaði og ber saman bækur sínar. Í dag mánudaginn 17. mars hittumst við á skólasafni Seljaskóla. Seljaskóli er heildstæður grunnskóli í efra Breiðholti og í honum eru um 600 nemendur. Um skólasafnið sér Dröfn Vilhjálmsdóttir upplýsingafræðingur og sagði hún okkur upp og ofan af skemmtilegi starfi á safninu. Hún leggur mikla áherslu á að hafa safnið opið sem mest á skólatíma og að nemendur finni að þeir séu ávallt velkomnir. Starfið á safninu er fjölbreytt en Dröfn hefur undanfarið kennt nemendum á undraheima leitarvéla ásamt því að styðja við lestur með fjölbreyttum leiðum. Nemendur í 1. til 5. bekk hafa fasta tíma á safni en aðrir nemendur koma á safnið í tengslum við verkefnavinnu og lestur. Dröfn sagði okkur frá skemmtilegu þróunarverkefni sem unnið er í samstarfi við foreldra og kallast lestrarskjóður en þá geta nemendur fengið skjóður með sér heim með bókum og fylgihlutum. Verkefnið er rétt að fara af stað og gaman verður að heyra meira um það þegar það er farið að rúlla. Þess má geta að skólasafnið er með Facebooksíðu sem gaman er að fylgjast með.