Óðinn og bræður hans á Hellu
Sigurlína Magnúsdóttir sem starfar á skólasafni Grunnskólans á Hellu hefur unnið skemmtilegt verkefni sem tengist norrænni goðafræði. Nemendur í 4. bekk hlustuðu á söguna um Óðin og bræður hans eftir Iðunni Steinsdóttur á skólasafninu. Þá var spjallað um innihaldið og fleiri bækur um goðafræðina voru skoðaðar. Nemendur völdu sér persónur úr bókinni, teiknuðu þær og fóru síðan með þær til textílkennarans Þórhöllu Þráinsdóttur, þar sem þeir útfærðu myndirnar sínar í efni og gerðu veggteppi. Á meðan nemendur unnu að myndunum sínum á skólasafninu var bókin Gersemar goðanna eftir Selmu Ágústdóttur lesin. Þess má geta að þegar sömu nemendur voru í 3. bekk var unnið á svipaðn hátt með Njálu. Þá var lesin bókin Njála eftir Brynhildi Þórarinsdóttur. Nemendur völdu sér persónur eða atburði úr sögunni, teiknuðu og yfirfærðu á efni í textílmennt og bjuggu til veggteppi.