Finndu okkur á Facebook
velkomin
Prenta

Heimsókn í Árskóla

Höfundur: Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að ég hef gaman af því að heimsækja aðra skóla og þá sér í lagi skólasöfnin. Nú í nóvember átti ég erindi norður á Sauðárkrók og þrátt fyrir að það væri helgi datt mér í hug að hafa samband við skólasafnskennarann í Árskóla og athuga hvort hægt væri að taka á móti mér. Það reyndist auðsótt mál og fékk ég góðar móttökur hjá Erlu Kjartansdóttur sem þar ræður ríkjum. Skólasafnið er vel staðsett á annarri hæði í nýrri byggingu í skólanum og er Erla þar í fullu starfi. Hún sinnir safnakennslu og vinnur í nánu samstarfi við tölvukennarann í samþættum verkefnum. Skólasafnið er vel búið bókum og öðrum gögnum. Á safninu sjálfu eru nokkrar tölvur sem nemendur geta unnið í en einnig eru tvö tölvuver inn af safninu, eitt lítið og annað stærra. Safnið er tengt við Metrabók skráningarkerfið. Það var gaman að heimsækja þetta fallega safn og vonandi á ég eftir að koma þangað seinna þegar nemendur eru við störf.

Prenta

Innlit í tvö skólasöfn

Höfundur: Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Á haustdögum hafði fékk ég tækifæri til að heimsækja tvo skóla utan höfuðborgarinnar og lagði áherslu á að koma á skólasöfnin. Þetta voru Grunnskólinn í Borgarnesi og Heiðarskóli í Hvalfjarðarsveit.


Grunnskóli Borgarness er meira en 100 ára gamall skóla og stendur á fallegum stað í gamla bænum. Við skólann stunda um 300 nemendur nám í 1. til 10. bekk. Í skólanum er skólasafn sem opið er á starfstíma skólans. Um það sér Björg Kristófersdóttir kennari. Hún aðstoðar nemendur við val á bókum og er kennurum innan handar þegar þeir þurfa bækur í ritgerðarvinnu eða aðrar verkefnavinnu. En ekki er um skólasafnskennslu að ræða.


Heiðarskóli er lítill skóli með aðeins um 80 nemendur. Húsnæðið er nýtt og glæsilegt og rúmar fleiri nemendur heldur en eru þar núna. Skólasafnið er í fallegu húsnæði og í því eru stórir gluggar sem vísa út að fjöllunum. Þar er flottur legusófi og get ég ímyndað mér að þar sé gott að liggja, lesa góða bók og láta sig dreyma. Á safninu starfar Jónella Sigurjónsdóttir kennari og sér hún um að halda öllu í horfinu. Nemendur í 1. -3. bekk fá bókasafnsfræðslu en nemendur í 4. -7. bekk fá tíma á safni en án kennara.

Prenta

Heimsókn til Stokkhólms

Höfundur: Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Í byrjun sumars þegar skólar voru rétt að ljúka starfsárinu var ég á ferð í Stokkhólmi og fékk að heimsækja skólabókasafn Södermalmsskolan. Skóli þessi er í miðborg Stokkhólms og er heildstæður grunnskóli með 750 nemendum. Janna Borg starfaði við safnið í hlutastarfi en sinnti jafnframt því kennslu í ensku. Næsta skólaár mun hún starfa við annan skóla í borginni en við hennar starfi tekur Malin Fransson sem er bekkjarkennari á yngsta stigi. Þær tóku báðar á móti mér og sögðu mér frá starfinu og þeirra sýn á hlutverk safnsins. Þær sögðu mér frá fleiri skemmtilegum söfnum sem vert væri að skoða en það þarf að bíða betri tíma.

Í sömu ferð heimsótti ég Kulturhuset en það hýsir meðal annars bókasöfn. Í húsinu er mjög gott barnabókasafn; Rum för barn sem er skemmtilega sett upp og hvet ég ykkur til að heimsækja það ef þið eruð á ferð í Stokkhólmi. Safnið skiptist í þrjú herbergi eftir aldri barnanna og lögð er áhersla á notalegt umhverfi þar börn geta gleymt sér í draumaheima bókanna.

Prenta

Heimsókn í Laugarnesskóla

Höfundur: Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Fagfólk á skólasöfnum sem starfa við Grunnskóla Reykjavíkur hittist reglulega í fyrir tilstilli Skólasafnamiðstöðvar Reykjavíkur. Fundir eru haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði þar sem nýjar bækur eru kynntar. Flestir fundir hafa farið fram í Háaleitisskóla – Hvassó þar sem Skólasafnamiðstöð er til húsa en einnig kemur fyrir að þeir séu haldnir í öðrum söfnum. Þann 8. apríl fór slíkur fundur fram í Laugarnesskóla. Sigríður Heiða skólastjóri tók á móti hópnum og ræddi um gangsemi góðs skólasafns og hversu mikilvægu hlutverki það gegndi í námi barna. Vignir Ljósálfur Jónsson sem veitir safninu forstöðu sagði frá skemmtilegu lestrarhverjandi sem tengist drekum. En í því geta nemendur unnið sig upp í að verða drekameistarar af fyrstu, annarri eða þriðju gráða eftir að hafa lesið ákveðna titla af bókum sem eiga það sameiginlegt að tengjast drekum. Vonandi fáum við meira að heyra frá þessu verkefni Vignis á næstunni. En skólasafnið í Laugarnesskóla er staðsett í nýju húsnæði og er einstaklega skemmtilegt. Öllu er nostursamlega komið fyrir og merkingar líflegar og góðar. Á safninu fer fram kennsla með hefðbundnum hætti og kennt á þremur önnum. Nemendur í 2., 3. og 4. bekk fá fasta tíma á safninu, nemendur í 5. og 6. bekk fá afnot af fjórum tölvum skólasafnsins og aðstoð við heimildaöflun.

Sendu inn gögn


Skráning á póstlista

Nafn:
Vefpóstur:

шаблоны joomla 2.5