Prenta

Heimsókn í Árskóla

Höfundur: Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að ég hef gaman af því að heimsækja aðra skóla og þá sér í lagi skólasöfnin. Nú í nóvember átti ég erindi norður á Sauðárkrók og þrátt fyrir að það væri helgi datt mér í hug að hafa samband við skólasafnskennarann í Árskóla og athuga hvort hægt væri að taka á móti mér. Það reyndist auðsótt mál og fékk ég góðar móttökur hjá Erlu Kjartansdóttur sem þar ræður ríkjum. Skólasafnið er vel staðsett á annarri hæði í nýrri byggingu í skólanum og er Erla þar í fullu starfi. Hún sinnir safnakennslu og vinnur í nánu samstarfi við tölvukennarann í samþættum verkefnum. Skólasafnið er vel búið bókum og öðrum gögnum. Á safninu sjálfu eru nokkrar tölvur sem nemendur geta unnið í en einnig eru tvö tölvuver inn af safninu, eitt lítið og annað stærra. Safnið er tengt við Metrabók skráningarkerfið. Það var gaman að heimsækja þetta fallega safn og vonandi á ég eftir að koma þangað seinna þegar nemendur eru við störf.