Finndu okkur á Facebook
velkomin
Print

Heimsókn á skólasafnið í Fossvogsskóla

Written by Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Fossvogsskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkurborgar og er staðsettur á fallegum stað í Fossvogsdal. Í skólanum eru nemendur á aldrinum 6 - 12 ára.  Skólasafn Fossvogsskóla er opið og skemmtilegt í miðrými skólans og einkar aðgengilegt.
Skólasafnið er helsti upplýsingamiðill skólans og markmiðið að auðvelda nemendum og kennurum
gott aðgengi að honum. 

Ragnhildur Birgisdóttir er forstöðumaður safnins og leggur hún áherslur á þverfaglega vinnu í samstarfi við kennara skólans ásamt því að styðja við lestrarnám þeirra.

Print

3 - 2 - 1 lestrarsprettur

Written by Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Lestrarátak Ártúnsskóla 2015, fór fram um mánaðarmótin janúar/febrúar. Að þessu sinni var einkenni átaksins 3-2-1 þar sem nemendur svöruðu spurningum úr textanum sem lesinn var:
3 spurningum um atriði sem þau lærðu við lesturinn...
2 spurningum um áhugaverðar staðreyndir...
1 spurningu sem vaknaði við lesturinn....
Markmiðið var að auka lesskilning hjá nemendum og fá þá til að staldra við og velta fyrir sér því sem þau lesa. Var hvatt til lesturs fræðibóka en öll skáldrit einnig með. Lestrarátakið tók einnig mið af Lesskilningshjólinu sem var unnið af hópi fagfólks sem vinnur að bættu læsi grunnskólanemenda. Lesskilningshjólið er kennslutæki sem auðveldar nemendum
að velta fyrir sér lesefni áður en lestur hefst, á meðan þeir lesa og að loknum
lestri með það að markmiði að auka lesskilning.
Í lokin var metin fjöldi blaðsíðna og málefnalegustu svörin á blöðunum úr hverjum bekk, til helminga.

lesskilningshjol

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er hægt að nálgast allar upplýsingar:

pdfLestrarmiði

pdfLeiðbeiningar

Lesskilningshjólið

pdfLestrarsprettur leiðbeiningar

pdfViðurkenningarskjal

Print

Jól á skólasöfnum 2014

Written by Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Nú þegar desember er liðinn er ekki úr vegi að taka saman nokkra skemmtilega punkta um hvað hefur verið á dagskrá á skólasöfnum í þessum annasama mánuði.


Fastir liðir hjá mörgum er að lesa upp úr jólabókum bæði nýjum bókum sem við köllum oft jólabækur eða út bókum sem tengjast jólum á einhvern hátt. Í Háteigsskóla las Heiða Kvæðið um jólasveinana 13 eftir Jóhannes úr Kötlum og í framhaldi af því fóru nemendur í jólasveinaleiðangur á safninu. Þeir áttu að finna jólasveinana 13 sem búið var að stilla upp víðsvegar um safnið og skrá stafi, sem voru límdir við hverja jólasveinamynd, í lykilorð. Þarna fara nemendur í alla króka og krika safnsins og kynnast því betur. Það má ekki segja öðrum hvar sveinarnir eru faldir eða frá lykilorðinu. Þetta verkefni hentar vel yrir nemendur í  2. bekk  og upp út.

pdfMyndir af jólasveinum og auglýsing

Renningar fyrir lykilorð

 


Heiða var einnig með skemmtilegt verkefni tengt Bókatíðindum sem hún kallar Hvaða bók langar þig í? Nemendur fengu atkvæðaseðil og settu í vasa hjá viðkomandi bók. Heiða tók svo saman niðurstöðurnar. Hér fyrir  neðan er hægt að nálgast leiðbeiningar og önnur gögn í sambandi við þetta og í myndasafninu eru einnig myndir frá henni, Iðunni í Rimaskóla og Gunni Ingu í Árbæjarskóla sem voru með samskonar verkefni.

pdfMig langar


Skemmtilegt andrúmsloft var hjá Dröfn í Seljaskóla. Hún skreytti safnið með rafmangskertum og seríum, var með slökkt ljós og fékk heilu árgangana í einu á safnið. Hún breytti uppröðun á safninu þannig að allir kæmust fyrir á púðum og dýnum. Þegar nemendur gengu inn var kósý stemmning með jólalögum og jólaljósum. Svo las hún jólabækur líkt og Sjáðu Maddit það snjóar, Svanur og jólin, Víst kann Lotta næstum allt og svo Grýlu eftir Gunnar Helga. Sú síðastnefnda er alveg frábær bók, svo fyndin og skemmtileg. Svo koma gömlu jólasveinarnir fyrir í henni sem passar vel við jólabókaleikinn . Á meðan þessum upplestri stóð var safnið lokað en annars er það alltaf opið. Krökkunum fannst þetta mjög hátíðlegt og skemmtilegt.


Í Kerhólsskóla var skemmtilegt verkefni. Þar var jólabókum pakkað inn í jólagjafapappír, (reyndar fékk elsti bekkur 8.bekkur, nýjar bækur þar sem ekki var til nóg af jólabókum við þeirra hæfi) svo var hver bekkur heimsóttur og nemendum afhent „gjafir" þau máttu opna heima og njóta og skila svo eftir jól. Þetta mæltist vel fyrir og höfðu foreldrar orð á því að þetta hafi hitt í mark.


Hjá Hallberu í Brekkubæjarskóla hefur skapast sú hefð að á safnið koma allir bekkir og eiga notalega stund við kertaljós. Lesið er upp úr að meðaltali 3 – 5 bókum ,nemendum er bent á Bókatíðindin og síðan fá allir ,,nammi" fyrir heilann og hjartað en það eru jólaljóð á samanbrotnum miðum – mismunandi eftir aldri. Nemendur eru hvattir til að læra ljóðið utan af – þau geta lesið upphátt fyrir einhvern – teiknað mynd eða hvað sem er. Stundum hafa krakkarnir fengið bókamerki eða kort frá Norrænu bókasafnavikunni. Reyndar fékk unglingadeildin Hafnarfjarðarbrandara á miðunum sínum þar sem þeir hlustuðu á brot úr bókinni Hafnfirðingabrandarinn en passað var að nemendur í sama bekk fengju ekki sama brandarann. Nemendur lásu síðan brandarana fyrir bekkjarfélagna þegar þeir komu í stofuna sína.


Á mörgum söfnum hefur jólalestrarverkefni Vignis í Laugarnesskóla verið tekið upp við miklar vinsældir. Hægt er að lesa um það hér.


Á þessu eru auðséð að söfnin skipta miklu máli í lestrarnámi barnanna og ætti að ver fastur punktur í hverjum skóla. Við þökkum öllum sem sendu inn fréttir kærlega fyrir og vonandi nýtist þetta einhverjum á næstu árum.

pdfGleðileg jól á ýmsum tungumálum.

Print

Heimsókn að Kleppjárnsreykjum

Written by Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Í stjórn Félags fagfólks á skólasöfnum situr Sigríður Halldór Gunnarsdóttir upplýsingafræðingur sem starfar á skólasafni Grunnskóla Borgarfjarðar að Kleppjárnsreykjum.  Sigríður er í 50% starfi á safninu og 50% sem ritari skólans. Í haust hélt stjórnin fund þar og fengum við tækifæri til að kíkja að fallega safnið hjá Sigríði. Safnið er ekki stórt enda aðeins rúmlega 80 nemendur í 1. - 10. bekk í skólanum. Engu að síður er það vinalegt og vel hugsað um það. Alltaf gaman að koma í heimsókn á önnur söfn. En endilega kíkið á myndirnar.  

Print

Sagan af bláa hnettinum

Written by Rósa Harðardóttir on . Posted in Fréttir

Haustið 2013 hafði Krystyna Kolendo, kennari í Gdansk í Póllandi, samband við Laufeyju Einarsdóttur, umsjónarkennara í Kelduskóla Korpu, í gegnum eTwinning sem er rafrænt skólasamfélag í Evrópu. Krystyna bað Laufeyju um að koma í samstarf með bókina Sagan af Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá Krystynu vegna þess að sýna átti leikverkið í Póllandi þá um vorið og bókin var nýkomin út á pólsku. Laufey ræddi við skólasafnskennarann Rósu Harðardóttur sem varð strax mjög spennt yfir hugmyndinni og ákveðið var að skella sér í verkefnið. Til þess að fá fleiri í samvinnu var haft samband við Christine Sobota, skólasafnskennara í Frakkland. Henni leist vel á hugmyndina, útvegaði sér og nemendum sínum bókina á frönsku og hafist var handa við verkefnið. Öll samskipti fóru fram í gegnum eTwinning gáttina og mælum við með því fyrir þá sem hafa áhuga á samstarfi við kennara í öðrum Evrópulöndum.
Bókin var lesin með nemendum í 6. og 7. bekk en aldur nemenda í Frakkland var annar þar sem um valvinnu var að ræða. Skemmtilegar og áhugaverðar umræður spunnust við lestur bókarinnar sem hentar mjög vel í kennslu með þessum aldurshópi. Andri Snær kom einnig í heimsókn til okkar í Korpu snemma í ferlinu og ræddi við nemendur um verkið og störf sín. Nemendur undirbjuggu sig fyrir spjallið og gekk það mjög vel enda voru þeir mjög áhugasamir um ýmis samfélagsleg málefni sem eru undirliggjandi í sögunni sem og störf rithöfunda. Nemendur byrjuðu á því að gera stutta kynningu á sjálfum sér í Prezi og vakti það mikla lukku hjá nemendum bæði í Póllandi og Frakklandi. Nokkrir nemendur töluðu saman á Skype og kynntust þannig hver öðrum, lærðu nokkur orð á öðru tungumáli og fræddust um skóla hvers annars.
Margvísleg verkefni voru unnin samhliða lestri bókarinnar. Í upphafi fengum við hugmyndir að umræðuefnum og verkefnum úr sögurammanum um Bláa hnöttinn sem Bergþóra Þórhallsdóttir gerði og kom út hjá Námsgagnastofnun árið 1999. Einnig vorum við svo heppnar að geta farið í heimsókn á þemadaga í Háaleitisskóla í Reykjavík þar sem við sáum nemendur vinna margvísleg verkefni í tengslum við bókina. Út frá þessum hugmyndum sem og okkar eigin voru útfærð ýmis konar skapandi verkefni.
Lestur bókarinnar, umræður og verkefni dreifðust yfir allt skólaárið og um vorið var sett upp falleg og skemmtileg sýning á verkefnunum á skólasafninu. Verkefnin voru meðal annars:
• Fiðrildi - unnin úr svörtu kartoni og blómapappír – verkefnið var samþætt stærðfræði þar sem rætt var um speglun, speglunarása og samhverfur.
• Óskasteinar - farið var í fjöruferð þar semnemendur fundu sér óskastein, þæfðu utan um hann hylki úr ull og sömdu um hann ljóð.
• Skrímslamyndir - nemendur teiknuðu einn þriðja hluta af skrímsli en vissu ekki hverjir voru að teikna hina hlutana, síðan voru þeir settir saman og útkoman voru glæsileg skrímsli þar sem hugmyndaflug nemenda fékk að njóta sín.
• Ef ég gæti flogið - ritunarverkefnisem var skrifað á bláan pappír og klippt út í hring, jafnstór hringur þar sem nemendur höfðu teiknað hnött var hengdur við. Einnig voru teknar ljósmyndir af andlitum nemenda sem þeir límdu á teiknaða fljúgandi búka og stráðu glimmeri (fiðrildadufti) yfir. Verkefnið kom sérlega skemmtilega út.
• Köngulær – námshandavinna: nemendur bjuggu til köngulær úr dúskum og pípuhreinsurum og voru hengdar upp í loft á skólasafninu.
• Veggmynd – ofangreind verkefni eru öll hluti af stærri veggmynd sem var sett upp á skólasafninu.Stuttir leikþættir: í leiklist sömdu nemendur saman litla leikþætti úr sögunni og tóku upp með ipad.
Þess má geta að Andri Snær var viðstaddur sýninguna í Gdansk og gat því hitt pólska nemendur Krystynu í sömu ferð og Christine sú franska kom til Íslands í sumar sem ferðamaður þannig að eTwinning hefur ótvírætt gildi fyrir samskipti fólks í Evrópu. Við höfum enn ekki lokið verkefninu formlega en leikhópurinn sem sýndi verkið í Gdansk er væntanlegur til Íslands núna í haust. En myndir segja meira en mörg orð. Ef einhverjar spurningar vakna þá er ykkur velkomið að hafa samband.
Rósa Harðardóttir
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Laufey Einarsdóttir
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Sendu inn gögn


Skráning á póstlista

Nafn:
Vefpóstur:

шаблоны joomla 2.5