Alþjóðadagur læsis í Brekkubæjarskóla
Í Brekkubæjarskóla á Akranesi er starfrækt öflugt lestrarteymi. Fulltrúar þess eru afskaplega duglegir og áhugasamir um að efla lestrarfærni nemenda skólans. Það var því kjörið tækifæri að hafa sérstakt lestrarátak til að minna á Alþjóðadag læsis og Bókasafnsdaginn. Þriðjudagsmorguninn 10.september var lestrarstund í skólanum með yfirskriftinni Allir lesa. Allir starfsmenn og nemendur lásu frá kl. 8:30 - 8:50 sama í hvaða námsgrein þeir voru staddir og lesa mátti hvar sem var í skólanum. Foreldrar voru hvattir til að koma og lesa með börnum sínum.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem slík lestrarstund er haldin í skólanum og því gekk þetta eins og í sögu og allir lásu sér til yndis og ánægju. Það sem einna ánægjulegast var við þessa stund var að sjá hversu margir foreldrar sáu sér fært að mæta og eiga notalega stund með börnum sínum.
Hægt er að sjá fleiri myndir á heimasíðu Brekkubæjarskóla, brak.is.