Finndu okkur á Facebook
velkomin
Print

Heimsókn í Austurbæjarskóla

Written by Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Skólasafnið í Austurbæjarskóla er einstaklega vinlegt og þangað er gott að koma. Safnið er staðsett miðsvæðis á 1. hæð miðálmu. Það er 120 fm. að stærð og rúmar um 50 manns í sæti. Skólabókasafnið á rúmlega 23.000 bækur og að auki er safnið áskrifandi að mörgum tímaritum. Á safninu eru líka ýmis önnur gögn s.s. tölvuforrit, margmiðlunardiskar, mynddiskar, kort, veggspjöld, hljóðbækur, spil og töfl.
Allar bekkjardeildir koma vikulega í tíma í ,,upplýsingamennt á bókasafni". Safnkennslan felst m.a. í að nemendur eru þjálfaðir í upplýsingaleit og heimildavinnu. Yngstu nemendurnir fá sögustundir við sitt hæfi. Meðal viðfangsefna í bókasafnstímum hinna ýmsu árganga er t.d. heimilda- og bókmenntaritgerðasmíði og bókagerð.
Þegar okkur bar að garði þá var lestrarátaki nýlokið en lestrarátök í skólanum hafa verið sérlega metnaðarfullt þar sem margir kennarar taka höndum saman.
Á safninu starfa Inga Lára Birgisdóttir bókasafnsfræðingur og kennari og Piret Laas kennari.

Print

Skólasafnið í Vogaskóla

Written by Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Vogaskóla er heildstæður grunnskóli í Reykjavík og tók til starfa í desember 1958. Skólinn er hverfisskóli í Vogahverfi og tilheyrir hverfi tvö í borginni. Vogaskóli er einn af eldri skólum borgarinnar og á sér langa og merka sögu. Hann er í grónu hverfi og nálægt náttúruperlum eins og Laugardal og Elliðaárdal. Húsnæði skólans skiptist í tvennt, eldri byggingu og nýbyggingu. Skólasafnið eða upplýsingaver skólans er staðsett í fallegu húsnæði í nýbyggingu skólans. Það er einkar rúmgott og vel búið. Berglind Guðmundsdóttir kennari stýrir safninu og vinnur með kennurum skólans að skipulagi og samþættingu verkefna. 

Print

Skólasafnið í Selásskóla

Written by Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Selásskóli tók til starfa haustið 1986 og er hann staðsettur í Seláshverfi í Reykjavík. Börnin eru í Selásskóla til 12 ára aldurs en þá fara þau í Árbæjarskóla sem er safnskóli hverfisins.

Skólasafnið er einstaklega fallegt í rúmgóðu húsnæði í nýjusta hluta skólans sem tekin var í notkun árið 2002. Safnið er vel búið gögnum bæði af skáldsögum og fræðiritum og er tölvustofa inn af safninu sem gerir þetta að sannkölluðu upplýsingaveri. Anna Guðrún Jósepsdóttir kennari sér um safnið.

Print

Heimsókn í Háteigsskóla

Written by Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Háteigsskóli er heildstæður grunnskóla í Reykjavík með  430nemendum. Áður hét skólinn Æfingadeild Kennaraháskólans. Safnið er hlýlegt og rúmgott og staðsett á miðhæð í B-álmu. Nemendur hafa aðgang að tölvum en auk þess er innangengt af safninu í tölvuver skólans. Á safninu starfar Heiða Rúnarsdóttir og er þetta hennar fyrsta starfsár við skólann. Hún sér um safnkostinn, sinnir útlánum og kennir nemendum á safnið ásamt því að vinna með kennurum í ákveðnum verkefnum. Heiða er einstaklega dugleg að prófa sig áfram með ný verkefni og miðla til okkar sem vinnum á sama vettvangi.

Print

Heimsókn á Akranes

Written by Rósa Harðardóttir. Posted in Innlit

Á Akranesi eru tveir heilstæðir grunnskólar, Brekkubæjarskóli og Grundaskóli og þeim báðum eru góð skólasöfn.
Í Brekkubæjarskóla sem er eldri skólinn á Akranesi eru rúmlega 400 börn en í Grundaskóla eru nemendur rúmlega 600.
Skólasafn Brekkubæjarskóla er notalegt og fá nemendur markvissa kennslu í notkun þess. Hallbera Jóhannesdóttir sér um safnið og hefur gert það í mörg ár. Ásamt því að sjá um daglegan rekstur safnsins og kennslu á safninu þá sér hún upplestrarkeppnina í skólanum, árshátíðina og spurningarkeppni úr barnabókmenntum. Skemmtileg hefð hefur skapast hjá Hallberu en það er að klippa út úr blöðum og tímaritum fréttir og fróðleik þar sem nemendur skólans eru nefndir. Þetta límir hún samvikusamlega í úrklippubók sem geymd er á safninu og á þeim mátti sjá að þær eru mikið skoðaðar.
Á skólasafni Grundaskóla starfar Ingibjörg Ösp Júlíusdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur. Bókasafnið er upplýsingamiðstöð skólans. Það er staðsett miðsvæðis þannig að allar leiðir liggja á bókasafnið. Á safninu er lestrar- og vinnuaðstaða fyrir nemendur skólans auk þess sem þeir hafa aðgang að tölvum til verkefnavinnu og upplýsingaleitar. Ingibjörg hefur í samvinnu við Hallberu verið með spurningarkeppni úr barnabókmenntum sem er sérlega skemmtileg hefð.
Eftir að hafa spjallað við þær Hallberu og Ingibjörgu þá varð mér það enn betur ljóst hversu fjölbreytt störf fagfólks á skólasöfnum er. Því er mikilvægt að við tengjumst sterkum böndum til þess að geta miðlað hugmyndum, upplýsingum og öðru efni en ekki síður til þess að staða okkar í grunnskólum á Íslandi verði sterkari.

 

 

Sendu inn gögn


Skráning á póstlista

Nafn:
Vefpóstur:

шаблоны joomla 2.5